Fyrirtækjaheimsókn í Heilsueflingu og Heilsuleiðir
Fimmtudaginn 30. október var fyrsta fyrirtækjaheimsókn vetrarins. Heimsótt voru tvö fyrirtæki í eigu kvenna.
Fyrst tók Lonneke Van Gastel sjúkraþjálfari og einn af fjórum sérfræðingum landsins í barnasjúkraþjálfun á móti okkur. Lonneke sagði okkur frá því hvernig hún þróaði hugmynd sína um eigin sjúkraþjálfunarstofu á Brautargengisnámskeiði sem haldið var á Egilsstöðum vorið 2013. Hún opnaði stofuna í október sama ár og hefur gengið vel og er ánægð með móttökurnar. Lonneke hefur áhuga á að bæta jafnvel við starfssemina á stofunni og hefur til leigu herbergi fyrir þá sem vilja sinna skyldri starfssemi. Frekari upplýsingar um starfsemina hjá Heilsuleiðum má finna hér.
Næst heimsóttum við Fjólu Hrafnkelsdóttur ÍAK einkaþjálfara sem opnaði í september sl. Heilsueflingu Heilsurækt. Fjóla sagði okkur frá því sem hún býður uppá í stöðinni. Fjölbreytt úrval tíma er í boði CrossFit, Tabata, Interval þjálfun og tímar fyrir þá sem þurfa rólegri líkamsrækt eða þjást af stoðkerfisvanda. Einnig leigir Fjóla Simply Yoga aðstöðu fyrir jógatíma. Nýjasta hugmyndin hjá Heilsueflingu er áskorun sem hefst 10. nóvember og felst í því að þátttakendur greiða gjald sem rennur í pott sem gengur til sigurvegarans í áskorunninni. Því fleiri því stærri pottur. Nánari upplýsingar um Heilsueflingu Heilsurækt er að finna hér.
Að lokum var skundað á Salt þar sem súpa og brauð var á boðstólunum.
Sigrún Blöndal TAK kona Janúar 2015
Kona janúarmánaðar hjá Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) er Sigrún Blöndal. Kona mánaðarins hjá TAK er valin er af handahófi hverju sinni úr félagaskrá.
1. Við hvað starfar þú?
Grunnskólakennari og bæjarfulltrúi.
2. Hver er menntun þín?
Kennarapróf frá KHÍ og B.A.-próf frá Háskóla Íslands.
3. Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi?
Það skiptir mig mjög miklu að fjölskylda mín sé heilbrigð og fjölskyldu og vinum líði vel. Það er líka gaman að sjá verkefni, sem lengi hefur verið unnið að, komast í framkvæmd.
4. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Mér finnst gaman að vera með fólkinu mínu að sinna hversdagslegum hlutum en líka að taka þátt í uppbyggilegum samræðum um landsins gagn og nauðsynjar, hitta skemmtilegt fólk og skoða áhugaverða staði.
5. Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Hallormsstaður og Borgarfjörður eystri.
6. Hvað málefni á að setja í forgang á Austurlandi?
Bættar samgöngur og fjarskiptakerfi. Aukið samstarf og samvinnu milli svæða.
7. Hvaða bók er á náttborðinu hjá þér?
Það eru einar þrjár sakamálasögur sem ég hef ekki komist til að lesa en bíða betri tíma.
8. Hvað vilt þú sjá á dagskránni hjá TAK?
Því miður hef ég ekki getað nýtt mér dagskránna hjá TAK sem skyldi en hefur oft fundist fyrirtækjaheimsóknir og kynningar spennandi. Það held ég að sé góð leið til að kynna ný tækifæri fyrir konum á Austurlandi.
Stígum fram
Helgina 7.-8. mars verða Guðrún Bergmann og TAK með námskeið sem er ætlað öllum konum sem vilja verða besta útgáfan af sjálfri sér. Viðfangsefnið er fjölbreytt en byggir að mestu á bókinni Stígum fram (Lean in e. Sheryl Sandberg) sem Guðrún þýddi. Guðrún hefur haldið fjöldan allan af fyrirlestrum og námskeiðum í tengslum við bókina og nú í fyrsta sinn kemur hún á Austurlandið til að efla okkur í að stíga fram og láta í okkur heyra.
Laugardag 10:30-17:30.
Sunnudag 10-14:30.
Námskeiðið verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum.
Verð með hádegismat báða dagana 6000- fyrir félagskonur í TAK og 10.000- fyrir konur utan félags.
Hótel Hérað býður upp á gistingu:
Einn í herbergi með morgunverð á 19.600- (án morgunmats 17.550-).
Tveir í herbergi með morgunverð á 10.825 kr pr nótt.
Tilkynnið þátttöku ykkar á netfangið Þetta netfang er varið fyrir ruslpósti. Þú þarft að virkja Javascript til að sjá það.
Guðrún býður uppá bókina Stígum fram á 1000-. Við viljum gjarnan panta hana fyrir námskeiðið svo ef þið viljið eignast hana og jafnvel lesa fyrir námskeiðið viljum við fá póst frá ykkur fyrir 7. febrúar.