TAK-konur
Þórunn Guðgeirsdóttir-kona marsmánaðar
Kona marsmánaðar hjá Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) er Þórunn Guðgeirsdóttir fótaaðgerðafræðingur. Kona mánaðarins hjá TAK er valin er af handahófi hverju sinni úr félagaskrá.
Við hvað starfar þú? Ég vinn á fótaaðgerðastofunni Fótatak og stunda kennaranám við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Hver er menntun þín? Stúdentspróf, snyrtifræðimeistari og fótaaðgerðafræðingur.
Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi? Fjölskyldan og heilsan.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Það er svo margt, til dæmis gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni, borða góðan mat í góðra vina hópi. Stunda líkamsrækt og ýmisskonar áhugamál s.s. ræktun. Horfa á mynd eða lesa góða bók þegar tími gefst.
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Þessi er erfið mér finnst alltaf gott að koma í Hallormsstað og Atlavík. Selskógur kemur einnig upp í hugann.
Hvað málefni á að setja í forgang á Austurlandi? Ja, hvar á ég að byrja. Samgöngumál innan fjórðungsins og við aðra landshluta. Mennta- og atvinnumál. Við þurfum að haga málum þannig að það sé eftirsóknarvert að setjast að hjá okkur og við eigum að standa saman innan fjórðungsins og líta á hann sem eina heild, þannig verður samfélag okkar betra. Fólk sem vill eiga hér heima þarf líka að geta fengið húsnæði.
Hvaða bók er á náttborðinu hjá þér? Mundu mig, ég man þig e. Dorothy Koomson.
Hvað vilt þú sjá á dagskránni hjá TAK? Fræðslu ýmisskonar og skipulagðar ferðir. Ég hef ekki verið dugleg að taka þátt í starfi TAK en hef farið í eina ferð með ykkur þar sem farið var í dagsferð til Reykjavíkur, Alþingi heimsótt, Kraum í Aðalstræti og fleiri staðir þetta var bæði fróðlegt, gagnlegt og mjög skemmtilegt.