TAK-konur
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir- kona októbermánaðar
Kona októbermánaðar hjá Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) er Ásta Kristín Sigurjónsdóttir. Kona mánaðarins hjá TAK er valin er af handahófi hverju sinni úr félagaskrá.
1. Við hvað starfar þú?
Ég starfa sem fulltrúi nýsköpunar og þróunarsviðs Austurbrúar
2. Hver er menntun þín?
Ég er viðskiptafræðingur með framhaldsmenntun í verfkefnastjórnun frá Háskóla Reykjavíkur
3. Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi?
Gott jafnvægi á helstu vígstöðvum. Fjölskyldan mín skiptir að sjálfsögðu mestu máli en fá að sama skapi sennilega minnsta tímann minn. Það er því stöðugt verkefni að finna þennan gullna meðalveg í jafnvægi vinnu og einkalífs. Ná að njóta lífsins til fulls og gera mitt besta í að vera góð fyrirmynd almennt.
4. Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Mér finnst skemmtilegast að taka að mér verkefni sem eru krefjandi og lítið fyrirsjáanleg. Ég á það til að gleyma mér við málefni sem eru mér kær eða ég brenn fyrir með einhverjum hætti. Auk þess finnst mér skemmtilegt að skipta mér af allskonar málefnum hvort sem það er tengt samfélagsmálum, pólitík, skipulagsmálum eða hverju sem er. Fyrir utan það hvað mér finnst almennt gaman að því sem ég tek mér fyrir hendur og reynir á hugann þá finnst mér líka gaman að reyna á mig líkamlega og finnst fátt eins gaman og góðar stundir í náttúrunni með mínum allra bestu.
Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir- kona septembermánaðar
Kona septembermánaðar hjá Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) er Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir,sóknarprestur kona mánaðarins hjá TAK er valin er af handahófi hverju sinni úr félagaskrá.
- Við hvað starfar þú? Sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli
- Hver er menntun þín? Stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, kennarapróf, kandidatspróf í guðfræði.
- Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi? Fjölskyldan mín.
- Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Vera með fjölskyldunni ekki síst barnabörnum, ferðast, lesa góðar bækur svo er líka oft gaman í vinunni.
- Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Hrafnabjörg í Hjaltastaðaþinghá þar sem við systkinin eigum sumarhús.
- Hvað málefni á að setja í forgang á Austurlandi? Samgöngur, heilsugæslu.
- Hvaða bók er á náttborðinu hjá þér? Con Dios – Með Guði sem er nýtt fræðsluefni fyrir fermingarbörn og bókin um forföður minn Jón lærða.
8. Hvað vilt þú sjá á dagskránni hjá TAK? Góð fræðsluerindi og samverur. Efla kynningu milli byggðarlaga.
Ragnheiður Kristiansen - Kona janúar 2013
Kona desembermánaðar hjá Tengslanet austfirskra kvenna (TAK) er Ragnheiður Kristiansen. Kona mánaðarins hjá TAK er valin er af handahófi hverju sinni úr félagaskrá.
Spurningar:
- Við hvað starfar þú? Ég er ráðgjafi hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði
- Hver er menntun þín? Fil. Kand. í mannauðsstjórnun og vinnumarkaðsfræðum.
- Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi? Að njóta þessa dásamlega lífs sem okkur er gefið en einnig góð heilsa sem er ómetanleg.
- Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Vinna vinnuna mína, ferðast og útivist almennt.
- Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Kletturinn fyrir austan húsið mitt.
- Hvaða málefni á að setja í forgang á Austurlandi? Atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og léttan iðnað til að fá fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir konur. Samgöngumálin, göng og almenningssamgöngur.
- Hvaða bók er á náttborðinu hjá þér? Vatn handa fílum og Kolefnishringrásin eftir hann mág minn.
- Hvað vilt þú sjá á dagskránni hjá TAK? Fleiri hittinga svo við kynnumst betur til að auka möguleika á að nýta kraftinn sem í okkur býr.
Ingibjörg Jónsdóttir - Kona maí 2013
Kona mánaðarins hjá Tengslaneti austfirskra kvenna (TAK ) er valin af handahófi hverju sinni úr félagaskrá. Kona maímánaðar er Ingibjörg Jónsdóttir, starfsmaður mannauðsdeildar Landsbankans og Austurfarar.
- Við hvað starfar þú? Ég starfa í mannauðsdeild Landsbankans en sinni því starfi í fjarvinnu frá Egilsstöðum með reglulegum ferðum suður. Eins er ég að vinna með hörku duglegum og klárum stelpum í ferðaþjónustufyrirtækinu Austurför, en þar er ég mest í verkefnum tengdum Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og svo er ég með spennandi verkefni í höndunum sem tengist Kanada og Vesturförunum.
- Hver er menntun þín? Ég er með BSc í landfræði frá Háskóla Íslands.
- Hvað skiptir mestu máli í þínu lífi? Fjölskyldan, að láta drauma sína rætast og skila náttúrunni til afkomenda helst betri en við tókum við
- Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? Á veturna er það bók eða Bo Bedre fyrir framan arininn, helst með alla fjölskylduna dreifða í kringum mig að spila, lesa og lita. Ef ég vil hafa smá tíma fyrir sjálfa mig þá finnst mér gott að sökkva mér í evrópska dvd safnið mitt. Ekki nokkur maður hefur áhuga á því nema ég svo ég fæ góðan frið. Svo eldist ekki af mér spenningurinn við að dúða mig upp og fara í gönguferð í snjóbyl með fjölskyldunni, það er að segja ef ég fæ einhvern með mér. Á sumrin eru útilegur eða bústaðaferðir með grillmat og góðu fólki í uppáhaldi en gönguferðir með bakpoka, fjarri öllu manngerðu eru líka góðar fyrir sálina og reyni ég að komast í þannig ferðir sem
- Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Hallormsstaðaskógur. Gönguferð í trjásafninu og lautarferð í Neðsta reit minnir mig alltaf á af hverju ég bý hérna.
- Hvað málefni á að setja í forgang á Austurlandi? Atvinnumálin í víðasta skilningi. Inn í það fléttast t.d. bættar samgöngur, tækifæri til menntunar og ferðaþjónusta. Ég hef sérstakan áhuga á því að byggja upp heilsársferðaþjónustu á Austurlandi og tel tækifærin þar vera gríðarleg. Það yrði mikil innspýting í atvinnulífið á svæðinu ef við næðum að lokka til okkar nokkur þúsund ferðamenn í viðbót frá október – apríl. Fleiri störf myndu skapast og rekstrargrundvöllur fyrirtækja styrkjast. Þetta mun gerast, það er bara spurning hvenær.
- Hvaða bók er á náttborðinu hjá þér? Fjölmargar en Ríkisfang: Ekkert mun klárast næst.
- Hvað vilt þú sjá á dagskránni hjá TAK? Mér finnst fyrirtækjaheimsóknirnar hjá TAK frábærar og gaman og gott fyrir alla að kynna sér hvað aðrir eru að gera á svæðinu. Ég hefði líka gaman að fræðslugönguferðum; sögutengdum, náttúrutengdum, jarðfræðitengdum o.s.frv. Umhverfið í kringum okkur er fullkomin kennslustofa og það er svo mikið af fróðu fólki á svæðinu sem situr á spennandi upplýsingum.