logo stort

Tengslanet austfirskra kvenna - T.A.K.  - eru samtök kvenna á Austurlandi. Hlutverk þess er að sameina konur á Austurlandi, efla samstöðu þeirra, þekkingu og samstarf. Með samtakamætti T.A.K. er unnt að styrkja hagsmuni kvenna og efla konur persónulega og á hverjum þeim vettvangi sem þær kjósa, eða hafa kosið að hasla sér völl. Skráið ykkur í T.A.K og takið þátt í skemmtilegum félagsskap ! Allar konur velkomnar!

Innskráning

strik

Ársskýrslur

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2009-2010

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2009-2010

 

Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund þann 2. júní 2009 á þessa leið:

 

Formaður: Auður Anna Ingólfsdóttir

Ritari: Eygló Ægisdóttir

Gjaldkeri: Þórunn Hálfdanardóttir

Meðstjórnendur: Björk Sigurgeirsdóttir og Ingunn Anna Þráinsdóttir

 

Stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi voru 18 talsins, flestir súpufundir í hádeginu. Á fundunum var rætt almennt um starfið, verkefni sem voru framundan og skipulagningu þeirra. Einnig ræddum við um málefni líðandi stundar og fórum í hugarflug með það að markmiði að efla og styrkja Tak-ið. Það er óhætt að segja að fundirnir hafi verið markvissir og skemmtilegir.

Á starfsárinu lagði stjórn áherslu á að viðburðum væri dreift sem víðast um Austurland, sumir viðburðir voru vel sóttir en aðrir afar illa.

Best sóttu viðburðirnir voru án efa Prjónakaffið sem haldið var reglulega frá því í september og fram undir páska. Þátttakan var yfirleitt góð en áberandi að konurnar sem mættu voru fæstar félagar í TAK og höfðu ekki áhuga á að skrá sig. Samt sem áður teljum við þessa starfsemi hafa aukið orðspor okkar í TAK og ekki ólíklegt að það skili sér síðar.

Ákveðið var að gera nýja heimasíðu þar sem rekstrarkostnaður við þá sem til staðar var áður var alltof dýr og umhverfið þungt. Mikill kostnaður sparast á þessu starfsári við þessa framkvæmd. Kostnaður við gerð síðunnar var kr. 74.700.- en á móti lækkuðu hýsingargjöld um nærri 4000 kr. á mánuði, þannig að kostnaðurinn næst allur til baka á einu og hálfu ári.

Skráðir félagar eru rúmlega hundrað og er þar miðað við þær sem greiddu félagsgjöld á sl. hausti.

 

Konur mánaðarins á starfsárinu voru valdar með hlutkesti, hver stjórnarkona sendi Tótu númer, hún lagði saman og deildi í og taldi svo út frá síðasta númeri. Því er valið handahófskennt og alltaf spennandi að sjá hver varð fyrir valinu. Einstaka mánuðir féllu út, en eftirtaldar urðu þessa heiðurs aðnjótandi á þessu starfsári:

 

  • Jóhanna Björk Guðmundsdóttir, Egilsstöðum
  • Rósmarý Dröfn Sólmundardóttir, Stöðvarfirði
  • Ragnhildur Jónsdóttir, Höfn í Hornarfirði
  • Ásta Árnadóttir, Reyðarfirði
  • Guðrún Margrét Óladóttir, Egilsstöðum
  • Sigríður Sigþórsdóttir, Egilsstöðum
  • Alma Jóhanna Árnadóttir, Egilsstöðum

 

Júní 2009

19. júní var undirbúnings stofnfundur Tengslanets kvenna á Norð-Vesturlandi, þangað mættu fjórar TAK konur. Þeirra tengslanet heitir Virkja – norðvestur konur. Við það tækifæri afhentum við þeim grunn að nýrri heimasíðu, sem þær hafa nú tekið í notkun á slóðinni http://virkja.tengslanet.is

Kvennagolfnámskeið var haldið í júní að vanda. Þátttakan var ekki mikil en mikil ánægja með námskeiðið, sem var hið skemmtilegasta þrátt fyrir að veðrið væri ekki alltaf upp á hið besta.

Júlí og ágúst 2009

Ekkert starf fór fram fyrir utan stjórnarfundi á sumarmánuðum.

 

September 2009

Fyrirtækjaheimsókn í Sláturhúsið á Egilsstöðum, Halldór Benediktsson tók á móti fjölmennum hópi kvenna og þetta kvöld var Prjóna-kaffi á Egilsstöðum startað og haldinn hálfsmánaðarlega eftir það með mikilli þátttöku.

 

Námskeiðið „Komdu þér á réttan kjöl“ var haldið þann 26. september. Fámennt en afar gott að mati þeirra sem mættu. Auglýst námskeið „Framsögn og framkoma“ var fellt niður vegna ónógrar þátttöku.

 

Október 2009

Ráðstefna um stöðu og viðhorf kvenna á Austurlandi var haldin 1.október í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði en þar kynnti Tinna Halldórsdóttir lokaverkefni sitt undir heitinu „Hér eiga allir sínar eigin pumpur“. Alcoa styrkti þetta verkefni og Erna Indriðadóttir frá Alcoa var viðstödd ásamt góðum hópi TAK kvenna. Röð kynningarfunda fyrir ný-aðfluttar konur í Fjarðabyggð var haldin að undirlagi sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Fyrsti fundurinn var á Fáskrúðsfirði 5. október, 8. október var annar kynningarfundurinn á Reyðarfirði, sá þriðji var 12. Október á Eskifirði og sá síðasti 13. október á Norðfirði. Þátttakan á þessum kynningarfundum var mjög góð, frá 12 upp í 60 á hverjum fundi. Konur úr stjórn og varastjórn TAK kynntu starfsemi félagsins á þessum fundum og skráðu fjölmargar konur sig í samtökin við þessi tækifæri. Stofnfundur Tengslanets Vestfirskra kvenna sem fékk nafnið Edda var haldinn 8. október á Ísafirði og þrjár TAK konur mættu á stofnfundinn. Þeim var einnig afhentur grunnur að heimasíðu til afnota, en eru ekki búnar að koma sinni síðu í loftið ennþá. Þann 21. október var síðan farið í fyrirtækjaheimsókn í Vélsmiðjuna Hamar á Eskifirði, fámenn en afar fræðandi og skemmtileg ferð og veitingar glæsilegar.

 

Nóvember 2009

Þann 18. nóvember var fyrirtækjaheimsókn í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og Hótel Hallormsstað. Katrín Jóhannesdóttir handavinnukennari Hússtjórnarskólans var með sýningu á sinni hönnun og kynnti fyrir okkur verk nemenda. Þurý Bára, annar eigenda Hótelsins tók síðan á móti hópnum og sýndi okkur aðstöðuna og bauð að lokum upp á gómsætar veitingar. Þátttakan var góð og allir fóru glaðir heim. Aftur var reynt að ná í þátttöku í námskeiðið „Framsögn og framkoma“ án árangurs.

 

Desember 2009

Hingað til árviss ferð á Jólaföstuhlaðborð hjá Klausturkaffi féll niður vegna ónógrar þátttöku.

 

Janúar 2010

28. janúar var Seyðisfjörður sóttur heim og kynntu Seyðfirskrar TAK konur meðal annars Skaftfell, Gleymérei-systur kynntu sig og sýndu kjóla og margt fleira. Afar vel heppnað og skemmtilegt kvöld.

 

Febrúar og mars 2010

Ráðstefnan „Konur til áhrifa“ var haldin í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði 6. mars. Þar fluttu erindi Lára Eiríksdóttir framkvæmdastjóri og eigandi ræstingarfyrirtækisins Fjarðaþrif ehf.: „Úr rækjunni í fyrirtækjarekstur“ og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, kynjafræðingur: „Á vígvellinum eða í skúringum, kynjaðar myndir í íslenskum fjölmiðlum.“ Mjög áhugaverð erindi og umræður en því miður afar slök mæting.

Þann 8. mars var farið í heimsókn á Fáskrúðsfjörð þar sem TAK konur tóku á móti okkur, skoðuð var Loðnuvinnslan, skólamiðstöðin en þar eru innan veggja grunn-, leik- og tónlistarskóli, sagt frá framkvæmdum og skipulagi í bænum og endað svo á dásamlegri fiskisúpu og sögum frá Beggu á Kaffi Sumarlínu.

 

Apríl og maí 2010

Undirbúningur aðalfundar, vinna við að yfirfara samþykktir félagsins, uppgjör og skoðun ársreiknings voru aðalverkefni stjórnar.