logo stort

Tengslanet austfirskra kvenna - T.A.K.  - eru samtök kvenna á Austurlandi. Hlutverk þess er að sameina konur á Austurlandi, efla samstöðu þeirra, þekkingu og samstarf. Með samtakamætti T.A.K. er unnt að styrkja hagsmuni kvenna og efla konur persónulega og á hverjum þeim vettvangi sem þær kjósa, eða hafa kosið að hasla sér völl. Skráið ykkur í T.A.K og takið þátt í skemmtilegum félagsskap ! Allar konur velkomnar!

Innskráning

strik

Ársskýrslur

Ársskýrsla 2010-2011

Ársskýrsla Tengslanets Austfirskra Kvenna 2010-2011

Stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi voru 8 talsins og samráð haft að auki í formi reglulegra tölvupóstsamskipta. Tveir stjórnarfundir voru haldnir í gegnum Skype þegar færð var slæm. Á fundunum var rætt um starf félagsins, verkefni sem framundan voru og skipulagningu þeirra. Á starfsárinu lagði stjórn áherslu á að viðburðum væri dreift sem víðast um Austurland, sumir viðburðir voru vel sóttir en aðrir illa. Skráðir félagar í TAK eru rúmlega hundrað og er þar miðað við þær sem greiddu félagsgjöld á sl. hausti. Konur mánaðarins á starfsárinu voru valdar með hlutkesti, hver stjórnarkona sendi Þórunni númer, hún lagði saman og deildi í og taldi svo út frá síðasta númeri. Því er valið handahófskennt og alltaf spennandi að sjá hver varð fyrir valinu. Eftirtaldar urðu þessa heiðurs aðnjótandi á þessu starfsári:
 • Hrönn Jakobsdóttir, Egilsstöðum
 • Kristín Hlíðkvist Skúladóttir, Egilsstöðum
 • Signý Ormarsdóttir, Egilsstöðum
 • Guðrún Guðmundsdóttir, Reyðarfirði
 • Ólöf Inga Sigurbjartsdóttir, Fellabæ
 • Arnbjörg Sveinsdóttir, Seyðisfirði
 • Hulda Elma Guðmundsdóttir, Neskaupstað


Styrkumsóknir.

Sótt var um styrki á árinu til Vaxtarsamning Austurlands, Menningarráðs og Alcoa með verkefnahugmyndirnar Heilsuefling kvenna og Upp úr skúffunum. Enginn styrkur fékkst frá Menningarráði Austurlands né Vaxtarsamningi í þetta skipti, enda höfðu áherslur stjórnar Vaxtarsamnings breyst frá fyrri árum. Áætlað var að sækja um í Hlaðvarpann en fyrri dagsetningu umsóknar var breytt án vitundar stjórnarkvenna og því fór engin umsókn inn í ár. Styrkur að upphæð 200.000 kr. fékkst í verkefnið Upp úr skúffunum frá Alcoa, samstarfsverkefni við Austurgluggann og Tímaritið Gletting.

Júní 2010
Stjórn skipti með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund þann 8. júní 2010 á þessa leið:
Formaður: Rannveig Þórhallsdóttir
Gjaldkeri: Ingibjörg Jónsdóttir
Ritari: Þórunn Hálfdanardóttir
Meðstjórnendur: Unnur Óskarsdóttir og Ingunn Þráinsdóttir
Varamenn: Þorbjörg Gunnarsdóttir og Sigrún Þorsteinsdóttir.

Júlí og ágúst 2010
Engir stjórnarfundir voru haldnir í júlí og ágúst. Auglýst eftir tengiliðum TAK á heimasíðu félagsins í júlí, án árangurs. Í ágúst var fyrirhugað að halda námskeið í Kvennagolfi á Ekkjufellsvelli en féll það niður vegna ónógrar þátttöku.

September og október 2010
Ákveðið var að sækja um styrki í og leggja áherslu á eftirfarandi verkefni í vetur:

 • Upp úr skúffunum. Verkefnahugmyndin gengur út á að gera ritstörf kvenna sýnilegri og birta skrif kvenna (rannsóknir, ljóð, viðtöl, sögur, hugleiðingar, o.fl) í samstarfi við Austurgluggann og Tímaritið Gletting (Kvennablað).
 • Heilsuefling kvenna, sem hvetur konur til að rækta líkama og sál í góðri útivist, hvíla hugann frá daglegu annríki og njóta samveru við aðrar konur í fögru umhverfi.
 • Fyrirtækjaheimsóknir á sem flestum stöðum á Austurlandi.
 • Konur mánaðarins.

TAK tók virkan þátt í Kvennafrídeginum 25. október í samráði við undirbúningshóp kvennafrídagsins á Austurlandi. Kvennaganga hófst kl. 16:00 frá Íþróttahúsinu á Egilsstöðum, erindi flutt og baráttusöngvar sungnir í Tjarnargarðinum. Þátttaka var góð og ágætis baráttustemmning myndaðist í hópnum.


Nóvember 2010
Farið var í fyrirtækjaheimsókn í Hús Handanna 4. nóvember. TAK konur fóru í fyrirtækjaheimsókn til Vopnafjarðar 25. nóvember, þar var ferðaþjónustan á Síreksstöðum sótt heim, fyrirtæki Guðnýjar Sveinsdóttur skoðað (þvottahús, fataverslun og verslun) og endað í Kaupvangi þar sem Þórunn Egilsdóttir og Ágústa á Refstað tóku á móti hópnum í kvöldmat. (Ferðin á Vopnafjörð hafði verið ákveðin 27. október en fresta þurfti henni vegna ónógrar þátttöku).
TAK stóð ekki sérstaklega fyrir prjónahittingum í vetur en vakti  athygli á þeim sem voru þegar í gangi og félagið fékk sendar upplýsingar um. Prjónasamvera var haldin reglulega í vetur á Café Egilsstöðum, hjá Rauða krossinum á Egilsstöðum og í Prýði á Seyðisfirði.

Desember 2010
Auglýst var árvisst jólahlað í Skriðuklaustri, en endaði með því að einungis stjórnarkonur skráðu sig. Í stað þess að hætta við var ákveðið að halda áætlun og varð úr hið ánægjulegasta kvöld.

Janúar 2011
Í janúar hætti Ingibjörg Jónsdóttir, starfsmaður Þróunarfélags Austurlands, í stjórn þar sem hún flutti af svæðinu. Þorbjörg Gunnarsdóttir tók þá við gjaldkerastarfinu. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir kom einnig ný inn í stjórn á árinu frá Þróunarfélagi Austurlands.  Heilsuefling á Hallormsstað. Mjög góð þátttaka var í þessum viðburði. Hópur kvenna gisti eina nótt á Hótel Hallormsstað, naut hollra og góðra veitinga, stundaði jóga undir leiðsögn Unnar Óskarsdóttur jógakennara og gekk um skóginn í góðu veðri. Á viðburðinn komu mæðgur, frænkur og vinkonur og áttu saman góða stund og hvíld frá erli hversdagsins.

Febrúar og mars 2011
Farið var í fyrirtækjaheimsókn á Breiðdalsvík þann 24. febrúar. Farið var í Gamla Kaupfélagið, Steinasafnið, Handverkshúsið Ás og Arf-design.
Heilsuhelgi á Djúpavogi . Gist var eina nótt á Hótel Framtíð, farið var í göngur út á sanda, í sund, jóga stundað og holls og góðs matar neytt í góðum félagsskap og fögru umhverfi. Fóru konurnar endurnærðar heim eftir góða hvíld.

Apríl og maí 2011
Undirbúningur hafinn af krafti vegna verkefnisins Upp úr skúffunum og auglýst eftir verkefnisstjóra. Mun ný stjórn halda því kefli á lofti.
Aðalfundur undirbúinn, farið yfir samþykktir félagsins, og unnið að uppgjöri og skoðun ársreiknings. Styrkur að upphæð 200.000 fékkst frá Alcoa í Upp úr skúffunum og ákveðið var að TAK myndi leggja 250.000 í verkefnið í viðbót.

Stjórn og félagskonum er þakkað stjórnarárið sem er að líða,
____________________________________________
F.h. stjórnar Tengslanets austfirskra kvenna,

Rannveig Þórhallsdóttir