Fundargerðir stjórnar
Aðalfundur TAK 2012 - fundargerð
Aðalfundur TAK – Tengslanets austfirskra kvenna 2012
Haldinn á Hótel Öldu á Seyðisfirði, miðvikud. 23. maí 2012 kl. 20:00
Á fundinn mættu um 15 konur.
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Rannveig Þórhallsdóttir formaður setti fund, bauð fundarkonur hjartanlega velkomnar og skipaði Arnbjörgu Sveinsdóttur fundarstjóra og Báru Mjöll Jónsdóttur ritara.
Að beiðni Arnbjargar kynntu allar viðstaddar konur sig.
Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári
Rannveig formaður flutti skýrslu stjórnar, þar kom m.a. fram að haldnir voru 9 stjórnarfundir á starfsárinu og að lögð var áhersla á verkefnin Heilsuefling kvenna og Upp úr skúffunum auk fyrirtækjaheimsókna. Alls greiddu 93 konur félagsgjöld á árinu og hafa 7 konur verið konur mánaðarins frá síðasta aðalfundi. Þær eru:
Hulda Elísabet Daníelsdóttir
Kristbjörg Jónasdóttir
Þorgerður Malmquist
Erla Jónsdóttir
Halldóra Malin Pétursdóttir
Magdalena Aneta Marcjaniak
Sigríður Sigþórsdóttir
Sótt var um nokkra styrki vegna Upp úr skúffunum og fékkst styrkur úr Samfélagssjóði Landsvirkjunar að upphæð kr. 250 þúsund. Rannveig sagði frá verkefninu en það er þríþætt:
útgáfa kvennablaðs TAK og Glettings, ásamt samstarfi við Austurgluggann,
stefnumót við konur í atvinnurekstri (viðburður á kvennafrídaginn 24. okt.),
námskeið fyrir konur í stjórnir og að vekja athygli á 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafnt hlutfall kynja í stjórnum.
Hún fór yfir viðburði ársins; gönguferð í Hallormsstaðaskógi, dagsferð í Mývatnssveit, kynningu á TAK fyrir Soroptimistakonur, vellíðunarhelgi á Borgarfirði eystra og fyrirtækjakynningu í miðbæ Egilsstaða. Einnig málþing sem haldið var á kvennafrídaginn 24. okt. um frumkvöðlastarf og fjárfestingarmöguleika. En þar sagði Helga Valfells frá starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og nokkrar konur kynntu eigin fyrirtæki. Þá sagði Rannveig frá námskeiði fyrir konur í stjórnir og kvennablaði TAK og Glettings sem kom út núna í byrjun maí.
Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár kynntur og lagður fram til samþykktar
Þorbjörg Gunnarsdóttir gjaldkeri kynnti ársreikning Tengslanetsins fyrir árið 2011.
Tekjur voru 498 þús., gjöld 413 þús. og hagnaður ársins því um 85 þús. Handbært fé 31.12.2011 var rúm 659 þús.
Eftir stuttar umræður var skýrsla stjórnar borin upp og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Ársreikningur borinn upp og samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna
Í stjórn til 2ja ára voru kosnir aðalmenn Anna Björk Hjaltadóttir og Kristborg Bóel Steindórsdóttir. Til vara voru kosnar til 1 árs Unnur Óskarsdóttir og Sigrún Þorsteinsdóttir. Fyrir í stjórn eru Þorbjörg Gunnarsdóttir, Hrönn Jakobsdóttir og Stefanía Kristinsdóttir.
Ekki voru kosnir skoðunarmenn.
Ákvörðun félagsgjalds og gjalddaga þess
Lagt til að félagsgjald verði kr. 3000 auk kr. 250 í innheimtukostnað en innheimt verði í október.
Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Önnur mál og umræður
Hvatningarverðlaun TAK afhent
Rannveig afhenti hvatningarverðlaun TAK en þau hlaut að þessu sinni Lára Eiríksdóttir sem á og rekur fyrirtækið Fjarðarþrif og blómaverslun í Fjarðabyggð. Hrönn Jakobsdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd Láru og sagði aðeins frá starfsemi hennar.
Þórdís Bergsdóttir tók til máls og sagði frá því hversu mikils virði henni þykja þessi verðlaun en hún hlaut fyrstu hvatningarverðlaun TAK. Á svipuðum tíma afþakkaði hún riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu.
Kvennablað TAK og Glettings kynnt
Stefanía Kristinsdóttir verkefnisstjóri Upp úr skúffunum kynnti blaðið en það er eingöngu skrifað af konum (fyrir utan eina grein) og gerði Íris Lind Sævarsdóttir forsíðumynd. Hún heitir Álfkonuþráður og sýnir álfkonur við störf sín en á milli þeirra allra liggja strengir sem tengja þær órjúfanlegum böndum. Fyrstu eintök blaðsins voru afhent ríkisstjórn Íslands og stjórn Austurbrúar með hvatningu um að koma fleiri konum í stjórnir. Stefanía ritstýrði blaðinu og með henni í ritnefnd voru Rannveig Þórhallsdóttir og Þorbjörg Gunnarsdóttir.
Tillögur að nýrri heimasíðu
Þórunn Hálfdánardóttir kynnti tillögur að nýrri heimasíðu sem er í vinnslu. Hvatinn að því að gera nýja síðu var hugmynd um að hver meðlimur gæti fengið síðu með upplýsingum um sig og þar sem hægt væri að hafa samband við viðkomandi. Þarna væri þá komið tengslanet kvenna sem um leið er opinn gagnagrunnur sem hægt væri að leita í ef t.d. vantar konur í stjórn. Á síðunni verður líka hægt að skrá sig á póstlista, tengja við LinkedIn, Facebook, Twitter o.fl. Stefnt er á að síðan verði birt á www.tengslanet.is eftir um 10 daga þó félagatalið verði ekki tilbúið þá.
Umræður:
- Rannveig sagði frá því að fyrirhugað væri að fara í gönguferð út í Skálanes (frá Austdalsá) fyrir 15. júní nk. Verður auglýst nánar.
- Stefanía hvatti konur til að koma á framfæri hugmyndum um atburði og viðburði sem væri gaman að framkvæma. Unnur stakk upp á skíðanámskeiði.
- Þorbjörg og Hrönn kölluðu fráfarandi stjórnarmenn upp, þökkuðu þeim fyrir samstarfið og klappaði fundurinn fyrir þeim öllum.
Formlegum fundi slitið kl. 21:10 og við tók óformlegt spjall og kaffiveitingar í boði TAK.
Ritari: Bára Mjöll Jónsdóttir