Fundargerðir stjórnar
Stjórnarfundur TAK 19. september 2012
Mættar: Hrönn, Anna, Þorbjörg, Unnur og Stefanía. Hrönn, Anna og Stefanía voru saman heima hjá Hrönn en Unnur og Anna tóku þátt í fundinum í gegnum SKYPE.
Dagskrá:
- Styrkumsóknir
- Bréf til félagskvenna
- Vetrarstarf
- Kona mánaðarins
- Önnur mál
Stefanía vann umsókn til Samfélagssjóðs Alcoa-Fjarðaáls um áframhald á verkefninu „konur í stjórnir“ þar sem sótt er um styrk til að vinna kynningarefni og halda málþing. Ákvörðun um styrkveitingar mun liggja fyrir í byrjun október. Rætt var hvort sækja ætti um frekari styrki en ákveðið að bíða þar sem enginn önnur stór verkefni eru í deiglunni.
Drög að bréfi til félagskvenna var sent á stjórn og komin voru inn athugasemdir og tillögur að breytingum. Þorbjörg mun ljúka við bréfið og senda á félagskonur.
Vetrarstarf: Farið var yfir ákvarðanir um vetrarstarf sem teknar voru á síðasta fundi.
- Fyrirtækjaheimsókn til Fjarðaáls og almennur félagsfundur á Reyðarfirði: Hrönn og Anna eru búnar að ræða við Hilmar hjá Alcoa um fyrirtækjaheimsókn TAK í nóvember og munu kanna með aðstöðu fyrir almennan félagsfund. Sett var fram tillaga að tímasetningu 7. nóvember kl. 17:30, í kjölfar fyrirtækjaheimsóknar verðu haldinn almennur félagsfundur með léttum kvöldverði.
- Heilsuefling kvenna: Rætt var mögulegt samstarf við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs um gönguferðir á vegum TAK. Ákveðið að fækka skipulögðum gönguferðum hjá TAK-inu niður í tvær, eina fyrir áramót og eina í vor. Þess í stað verður safnað upplýsingum um skipulagða göngu- og útivistarhópa á Austurlandi og konur hvattar til að taka þátt. Fyrsta gangan verður í Bjargselsbotna (Hallormsstað) þann 29. september næstkomandi kl. 14. Stefanía tók að sér að ræða við Hótel Hallormsstað um tilboð í veitingar að lokinni göngu. Seinni gangan er fyrirhuguð næsta vor á Snæfell.
- Ákveðið var að halda jógahelgi 5.-6. október og kanna hvort ekki er hægt að hafa hana á Seyðisfirði í stað Hallormsstaðar og tvinna helgina saman við dagskrá „Haustroðans“. Unnur tók að sér að kanna með aðstöðu og gistingu hjá „Hótel Öldunni“.
- Sjálfsstyrkingarnámskeið - ákveðið var að bíða með sjálfsstyrkingarnámskeið þar sem svo mikið er á döfinni hjá félaginu.
Kona mánaðarins. Ekki er búið að senda spurningar eða kynna konu septembermánaðar. Talan sem valinn var á síðasta fundi var 36 en í ljós kom að sú kona hafði þegar orðið heiðursins aðnjótandi og næsta kona var Lára Vilbergsdóttir. Unnur tók að sér að nálgast spurningar hjá Rannveigu og senda á Láru. Stjórn ákvað að breyta fyrirkomulagi á vali á konu mánaðarins og að í stað þess að reikna út hver yrði valinn hverju sinni og þurfa ávallt að kanna hvort viðkomandi hafi verið valin áður þá yrði í framtíðinni dregið um konu mánaðarins úr þeim hópi sem ekki hefur verið valinn. Jafnframt verður leitast við að kynna konu mánaðarins í fjölmiðlum.
Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 21:10. Næsti fundur verður haldinn hjá Þorbjörgu þriðjudaginn 2. október kl. 20. Þeir sem eiga heimangengt mæta á fundinn en jafnframt verður hægt að hittast í gegnum SKYPE.