Fundargerðir stjórnar
Fundargerð Aðalfundar 2013
Aðalfundur TAK- Tengslanets austfirska kvenna haldinn á Hótel Héraði 30. maí 2013 kl. 20.00. Mættar voru 15 konur auk 2ja sem höfðu stutta viðdvöl á fundinum.
Dagskrá:
1. Fundur settur og kosin fundarstjóri og ritari.
2. Hefðbundin aðalfundarstörf.
3. Kosning stjórnar
4. Kosnir skoðunarmenn reikninga.
5. Ákvörðun um félagsgjald.
6. Önnur mál.
7. Hvatningarverðlaun TAK afhent.
8. Fundarslit og kaffiveitingar.
Formaður Hrönn Jakobsdóttir setti fundinn og lagði til að Guðlaug Ólafsdóttir yrði fundarstjóri og Jóhanna Guðmundsdóttir ritari, var það samþykkt.
Fundarstjóri óskaði eftir dagsskrárbreytingu þ.e. að 7. liður
Hvatningarverðlaun verði um kl. 20:15, samþykkt samhljóða.
Skýrsla stjórnar:
Hrönn Jakobsdóttir flutti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár:
Stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi voru samtals 8, 4 þeirra voru haldnir í gegn um skype þar sem færð var ekki góð. Á starfsárinu lagði stjórn helst áherslu á að kynna verkefnið Konur í stjórnir.
Ný heima og facebook síða var tekin í notkun, Anna Björk Hjaltadóttir hefur haft umsjón með þeim.
Sótt var um styrk til Samfélagssjóðs Alcoa-Fjarðaáls um áframhald á verkefninu „konur í stjórnir“ til að vinna kynningarefni og halda málþing.
Jafnframt höfum við verið í samstarfi við austfirskan fjölmiðil og kynnt konu mánaðarins í fréttablaðinu Austurland sem kemur út 1-2 sinnum í mánuði.
Alls greiddu 115 konur félagsgjöld á árinu og hafa 8 konur verið valdar konur mánaðarins frá síðasta aðalfundi.
Þær eru:
Okt. Lára Vilbergsdóttir .
Nóv. Anna Katrín Svavarsdóttir.
Des. Katrín Jóhannesdóttir.
Jan. Ragnheiður Kristiansen.
Feb. Bergrún A. Þorsteinsdóttir.
Mars Þórdís Bergsdóttir.
Apríl Hulda Dagbjört Jónasdóttir.
Maí Ingibjörg Jónsdóttir
Viðburðir ársins:
September gönguferð í Bjargselsbotna á Hallormsstað í dýrindis haustlitum. Endað á kaffihlaðborði á Hótel Hallormsstað.
Ýmsir viðburðir sem fyrirhugaðir voru á haustönn t.d. heimsókn í Skálanes– Jógahelgi á Seyðisfirði – Alcoa heimsókn féll niður vegna ónægrar þátttöku
Janúar kynningarfundur um Konur í stjórnum sem bæði var haldinn á Egilsstöðum og Reyðarfirði. KPMG fræddi okkur um Löggjöf um lágmark 40% hvors kyns í stjórnum og Alcoa Fjarðaál kynnti fyrir okkur jafnréttisstefnu fyrirtækisins.
Febrúar var haldið námskeið í Kínaskák á Hótel Héraði, fenginn var spilaklúbbur sem starfsræktur er á Reyðarfirði til að kenna. Konurnar sem mættu á Egilsstöðum hafa stofnað klúbb og hittast þær hálfsmánaðarlega. Nú í maí fórum þær niður á Reyðarfjörð og haldin var spilakeppni á milli þessara klúbba, skemmst er frá því að segja að Héraðskonur komu, sáu og sigruðu og höfðu heim með sér fyrsta sætið í einstaklings og farandbikar sem Reyðfirðingar höfðu keypt.
Mars Sagnakvöld í Tanga á Fáskrúðsfirði – Berglind Agnarsdóttir tók á móti konum og sýndi þeim Tangahúsið sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hefur gert upp af miklum myndarskap. Svo sagði hún ýmsar gamlar og nýjar sögur frá Fáskrúðsfirði og mannlífi þar.
Apríl fyrirtækjaheimsókn til Alcoa, konur voru leiddar um verksmiðjuna og endað í mötuneyti álversins þar sem Janne Sigurðsson forstjóri tók á móti hópnum og bauð konur velkomnar. Nokkur kynningaratriði voru, m.a. sagði Þórður Valdimarsson leiðtogi Áreiðaleikateymis frá rannsóknum úr skólaverkefni sínu, sem hann gerði í samstarfi við Alcoa
um viðhorf starfsmanna til jafnréttis fyrirtækisins um vitund og aðstöðu stöðu jafnréttismála.
Hvatningarverðlaun TAK afhent.
Stjórnin afhenti hvatningarverðlaun TAK-sins og fyrir valinu varð Auður Anna Ingólfsdóttir hótelstjóri Hótel Héraðs, formaður las eftirfarandi:
Auður Anna Ingólfsdóttir hlýtur hvatningarverðlaun TAK að þessu sinni. Verðlaunin eru veitt konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi.
Auður Anna var ein af stofnendum TAK árið 2006 og hefur setið í stjórn og verið formaður stjórnar tengslanetsins 2008-2010. Auður hefur verið í forystusveit ferðaþjónustuaðila á Austurlandi frá því að hún flutti austur og tók við Hótel Héraði þegar það opnaði. Hún er án vafa ein sú kvenna á Austurlandi sem setið hefur í flestum stjórnum t.d. hjá Þróunarfélagi, Markaðsstofu Austurlands, TAK, Vinnumarkaðsráði svo eitthvað sé nefnt. Hún hefur því rutt brautina fyrir verðandi stjórnarkonur á Austurlandi en TAK hefur á síðustu árum staðið fyrir tveimur námskeiðum fyrir verðandi stjórnarkonur og vakið athygli fyrirtækja á Austurlandi á mikilvægi þess að fara að jafnréttislögum við skipan í stjórnir samanber breytingar á hlutafjárlögum sem kveða á um 40/60 hlutfall kynja í stjórnum og taka gildi í september.
Við biðjum Auði að taka við þessari viðurkenningu frá okkur í TAK og óskum henni áframhaldandi farsældar í starfi og leik fullvissar um að við munum áfram geta leitað í hennar smiðjur eftir reynslu og stuðningi í framtíðinni.
Var Auði síðan afhent blóm, skjal þar um og gjöf.
Gjaldkeri fór síðan yfir ársreikning félagsins. Rekstrartekjur voru 753 þús. og gjöld 803 þús. Tap ársins því 50 þús. Eignir á bankareikningum 609 þús. jákvætt eigið fé 609 þús. Nokkrar fyrirspurnir voru og svaraði gjaldkeri því greiðlega, reikningurinn síðan borinn upp og samþykktur.
Kosning stjórnar til eins árs:
Stjórnin lagði fram tillögu um að eftirtaldar yrðu í næstu stjórn: Anna Björk Hjaltadóttir, Rf. Anna Katrín Svavarsdóttir, Egs. Magnfriður Ólöf Pétursdóttir, Egs. Sigrún Erla Þorsteinsdóttir Egs, og Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir Rf.
Tillaga stjórnar samþykkt samhljóða.
Tillaga um að til vara yrðu Harpa Vilbergsdóttir Rf, Jóhanna Björk Guðmundsdóttir Egs .
Samþykkt samhljóða.
Skoðunarmenn voru síðan kosnir Hulda Elisabeth Daníelsdóttir og Anna Dóra Helgadóttir.
Félagsgjald var síðan samþykkt óbreytt frá fyrra ári þ.e. 3.000 kr. + 250 kr. innh.kostn. gjalddagi verður 1. nóv. 2013.
Önnur mál:
Jóhanna Guðmundsdóttir sagði frá því að formaður Urðar- tengslanets kvenna í Þingeyjarsýslum Soffía Helgadóttir Húsavík hefði sendt sér póst þar sem hún lýsti áhuga á að þær heimsæktu okkur 21 .sept. n..k. og var því vel tekið málinu vísað til nýkjörinnar stjórnar.
Minnti Jóhanna einnig á að Nordisk Forum yrði í Malmo í júní 2014.
Anna Björk Hjaltadóttir sagði frá ferð sinni með Félagi kvenna í atvinnurekstri um norðurland í byrjun maí s.l. Sagði hún FKA haf áhuga á að heimsækja Austurland vorið 2014, var því einnig vísað til stjórnar.
Guðlaug rifjaði upp hugarflugsfund TAK fyrir 2 árum þar sem kom fram m.a. hugmynd um að halda fund þar sem 1. félagskvenna héldi kynningarerindi um sig og fundarkonur gætu síðan spurt nánar.
Hér kynntu fundarkonur sig, en það hafði gleymst í upphafi fundar.
Stefanía Kristinsdóttir sagði frá því að hún og fjölskylda hennar væru að flytja til Reykjavíkur nú í vor en hún er búin að vera félagskona frá stofnun og gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir TAK. Óskaði hún Tengslanetinu verlfarnað á komandi árum en óskaði jafnframt eftir að fá að vera áfram í félaginu.
Harpa Vilbergsdóttir spurði um búsetudreyfingu félagskvenna, en þær dreifast frá Vopnafjarðar til Hafnar í Hornafirði.
Í lokinn var rætt um hvort hægt væri að halda fundi fjarfundarbúnaði
Fundi slitið kl. 20:53
Jóhanna Guðmundsdóttir ritari.