Fundargerðir stjórnar
Fundargerð aðalfundar 2014
Aðalfundur Tengslanets Austfirskra kvenna haldinn þann 28. maí 2014 á Hótel Framtíð, Djúpavogi.
Mættar voru 15 konur en þar af voru 2 sem sátu ekki allan aðalfundinn.
Dagskrá aðalfundar:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar
3. Ársreikningur félagsins
4. Breytingar á samþykktum
5. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna
6. Ákvörðun félagsgjalds og gjalddaga
7. Önnur mál og umræður
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Formaður Anna Björk Hjaltadóttir setti fundinn kl. 20.45 og lagði til að Sigríður Herdís Pálsdóttir yrði fundarstjóri og Magnfríður Ólöf Pétursdóttir ritari, var það samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar
Stjórnarfundir voru 7 talsins. Stjórnin kom saman á fyrsta og síðasta fundinn, en hinir fundirnir voru haldnir í gegnum Skype.
Fjöldi félagskvenna:
Á síðasta aðalfundi voru 115 konur í TAK og í dag eru 117 konur skráðar.
Kona mánaðarins
September – Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir
Október – Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Nóvember – Lísa Lotta Björnsdóttir
Desember – Sigríður Herdís Pálsdóttir
Janúar – Sú sem varð fyrir valinu gaf ekki kost á sér
Febrúar – Hólmfríður Ófeigsdóttir
Mars – Þórunn Guðgeirsdóttir
Apríl – Bergljót Georgsdóttir
Maí – Elín Sigríður Einarsdóttir
Viðburðir ársins
Fyrir veturinn 2013-2014 lagði stjórn TAKs upp með að halda færri, en stærri viðburði þar sem reynsla fyrri ára sýndi minni aðsókn að viðburðum sem var verið að halda í hverjum mánuði. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var ákveðið að halda tvo litla viðburði að hausti og leggja metnað í stóran viðburð að vori.
Laugardaginn 21. september kom Tengslanet Þingeyskra Kvenna, Urður, í heimsókn á Austurland en ferð þeirra var liður í að blása lífi í starfsemi þessa tengslanets sem var stofnað að fyrirmynd TAK. Þær byrjuðu á að fá hádegismat á Hótel Héraði áður en þær fóru í skoðunarferð um Fjarðaál. Eftir það kíktu þær í Hús handanna og snæddu svo kvöldverð á Gistiheimili Egilsstaða áður en þær héldu heim á leið.
Miðvikudaginn 20. nóvember var farið í fyrirtækjaheimsókn á Eskifjörð. Þar var skipulögð heimsókn til Fjarðaþrifa og Tanna Travel. Því miður mættu eingöngu tvær konur (þ.m.t. formaður TAK) í þessa fyrirtækjaheimsókn, en fengu þeim mun persónulegri útlistanir á rekstri þessara fyrirtækja.
Föstudaginn 21. febrúar fékk TAK boð um að koma á hádegisfund hjá Fjarðaáli og hlusta á Kathrine Naess segja frá reynslu hennar. Vegna veðuraðstæðna mætti engin TAK kona sem starfar ekki hjá Fjarðaáli.
Helgina 1.-2. mars var haldið námskeið í að koma fram opinberlega og í fjölmiðlum. Fyrri daginn var leikkonan Edda Björgvinsdóttir með námskeið sem kallast „Að koma fram af öryggi“. Seinni daginn voru þau Björg Björnsdóttir og Hjalti Stefánsson með námskeið sem snéri að framkomu í fjölmiðlum. Þátttakendur fengu æfingu í að vera tekin í viðtal fyrir framan kvikmyndavél og endurgjöf á frammistöðu. 23 konur voru skráðar á námskeiðið og þar af voru 4 konur utan TAK.
Í lok námskeiðsins kom upp hugmynd um að halda æfingar í framkomu. Stjórnin skipulagði því fjórar æfingar á þriggja vikna fresti frá lok mars og fram yfir miðjan maí þar sem umfjöllunarefni urðu stigvaxandi hvað varðar áskorun og undirbúning, þ.e. allt frá því að segja frá áhugamáli í að rökstyðja málefni sem viðkomandi þykir mikilvæg í sveitastjórnarkosningum.
Mikil ánægja var meðal félagskvenna, bæði með námskeiðið og æfingarnar.
Helgina 9.-10. maí fékk TAK heimsókn frá konum í Félagi Kvenna í Atvinnurekstri. Var félagskonum boðið að taka þáttt í heimsókninni með því að kynna fyrirtæki sín fyrir FKA. Þau fyrirtæki sem voru heimsótt fyrri daginn voru Austurför, Sláturhúsið og listamenn í sláturhúsinu, Hótel Hallormsstaður þar sem Arfleifð var með sýningu á vörum sínum í kvöldverðarboði. Seinni daginn var farið á firðina í Alcoa Fjarðaál og síðan í Randólfssjóhús þar sem Mjóeyri og Tanni Travel kynntu starfsemi sína. Á leiðinni upp á Egilsstaði var stoppað í Sesem Brauðhúsi og áður en farið var í flug kíktu þær á Hús handanna og fengu smakk hjá Austfirskrum Krásum.
FKA konur voru mjög ánægðar með heimsóknina og urðu fyrir hughrifum af þeim eldmóði sem einkennir þær konur sem þær hittu hér á Austurlandi.
Skýrsla samþykkt.
3. Ársreikningur félagsins
Anna Katrín Svavarsdóttir gjaldkeri fór yfir ársreikning.
Anna Katrín Svavarsdóttir gjaldkeri fór yfir ársreikning 2013.
Rekstrartekjur voru 469 þús. og gjöld 378 þús. Hagnaður ársins því 91 þús. Eignir á bankareikningum 700 þús. jákvætt eigið fé 700 þús. Þess má geta fjármál félagsins eru nú ekki í eins góðum málum og við lok árs 2013 og kemur það til vegna þess að kostnaður við námskeið Eddu Björgvins var töluverður og engin styrk umsókn hlaut hljómgrunn. Reikningar samþykktir.
Kosning stjórnar
4. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna
Í varastjórn félagsins buðu þær Jóhanna Guðmundsdóttir og Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir sig fram og var það samþykkt með lófaklappi.
Í aðalstjórn félagsins buðu sig fram Sigrún Hólm, Tinna Halldórsdóttir og Elísabet Reynisdóttir og til áframhaldandi setu buðu sig fram Magnfríður Ólöf Pétursdóttir og Anna Katrín Svavarsdóttir. Samþykkt með lófaklappi.
Skoðunarmenn verða áfram Anna Dóra Helgadóttir og Hulda Elisabeth Daníelsdóttir. Samþykkt með lófaklappi.
6. Ákvörðun félagsgjalds og gjalddaga
Við upphaf ársins voru félagsmenn 115 og í lok ársins voru félagar 117.
Félagsgjaldið hefur verið 3.000 kr og seðilgjald 250 kr og var lagt til að það yrði það áfram. Samþykkt með lófaklappi.
7. Önnur mál og umræður
Anna Björk Hjaltadóttir vildi bera upp 2 mál.
1. Hvatningaverðlaunin 2014
María Ósk Kristmundsdóttir hlýtur að þessu sinni hvatningarverðlaun TAKs. Verðlaunin eru veitt konu á Austurlandi sem talin er hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi ásamt því að skara fram úr í störfum sínum í þágu kvenna.
María Kristmundsdóttir hefur verið í TAK síðan 2009. Hún hefur starfað hjá Alcoa Fjarðaáli síðan 2006 og var eini kvenmaðurinn í því teymi sem hún starfaði í. Hún fann engan mun á sér og strákunum í vinnunni fyrr en hún kom aftur í vinnu eftir fæðingarorlof. Þá tók hún eftir því að karlar með svipaðar fjölskylduaðstæður áttu auðveldara með að sinna krefjandi vinnu og yfirvinnu en hún. Þetta leiddi til þess að hún óskaði eftir því að starfa í jafnréttisnefnd Fjarðaáls.
María hefur starfað ötullega að jafnréttismálum hjá Fjarðaáli þar sem hún hefur meðal annars leitt vinnu við að skilgreina 10 ára aðgerðaáætlun til að ná jöfnu hlutfalli karla og kvenna hjá Fjarðaáli. Einnig hefur María komið því til leiðar að móðurfélag Alcoa Fjarðaáls ákvað að skrifa undir UN Women jafnréttissáttmála og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna innan alls fyrirtækisins. Skrifað var undir sáttmálann í Reykjavík í gær, 27. Maí.
Til viðbótar við þetta hefur María verið verkefnastjóri Soroptimista klúbbs Egilsstaða og verið dugleg að sækja viðburði TAK.
Við biðjum Maríu að taka við þessum hvatningaverðlaunum frá TAK með þeim skilaboðum að hún hafi unnið gott og óeigingjarnt starf í þágu kvenna. Einnig liggur í verðlaununum hvatning að halda áfram því góða starfi sem hún hefur þegar unnið.
María Kristmundsdóttir þakkaði fyrir sig og tók fram að því tilefni að við konur þurfum að halda áfram jafnréttisbaráttunni, stíga fram og láta karlmennina sinna heimili og uppeldi til jafns við konur. Við erum ekki að komast í leiðtogastörf en það er kominn tími til að taka það sem okkur ber. Hún benti jafnframt á að félagsskapur sem þessi (TAK) er svo mikilvægur.
2. Stofnun hóps kvenna í tæknigreinum.
Anna Björk stakk upp á að það yrði vettvantur fyrir mismunandi litla hópa innan Tengslanetsins sem gætu verið að hittast og vinna saman. Hugsað sem vettvangur til að mynda tengslanet innan vissra greina og að TAK yrði regnhlíf yyfir þessa hópa.
Þórunn Hálfdanardóttir sagði að þessu hugsun hefði verið í gangi fyrir nokkrum árum. Þetta ættu að vera litlir faghópar sem einbeittu sér að sérhæfðari sviðum því það getur verið miklu markvissara starf að einbeita sér að sameiginlegum verkefnum. Hópar mega gjarnan dreifast og ekkert endilega alltaf að vera þeir sömu. Mismunandi áherslur t.d. konur í tæknigreinum, frumkvöðlahópur, og svo framvegis.
Umræður um námskeið fyrir stelpur og konur. Þórunn sagði frá því að hún hefur oft kennt á tölvutengdum námskeiðum og þá draga stelpurnar sig til baka þegar nemendur eru blandaður hópur. Þórunn hefur oft hugsað um að halda sér stelpunámskeið þar sem hún kennir þeim að strauja tölvur, skipta um minni og fleiri einfaldari hluti til að nálgast þær sem vilja fara lengra í tæknigreinum.
Umræður á milli fundargesta.
Það þarf að breyta hugsanahætti þannig að stelpur hafi þor til að fara í þær greinar sem þær hafa áhuga á.
Stofna frumkvöðlahópa og hvetja stelpur til að þora að hafa áhuga á öðruvísi hlutum en „normið“ segir til um.
Anna Björk talaði um að tengslanet stjórnin gæti einbeitt sér að jafnvel 1 – 2 stærri viðburðum á ári hverju í staðinn fyrir að halda fleiri smærri viðburði.
María Ósk talaði um að það væri áhugavert að fá Jafnréttisstofu til að halda námskeið fyrir atvinnurekendur á svæðinu um þessi jafnréttismál. Ákvarðanir um stöðuveitingar eru oft teknar á gut feeling, erum ekki í jafnréttisumhverfi.
Fundi slitið.
Magnfríður Ólöf Pétursdóttir