Samþykktir fyrir TAK - Tengslanet Austfirskra Kvenna
1. gr.
Nafn félagsins og heimilisfang
Heiti félagsins er TAK, Tengslanet austfirskra kvenna. Heimili þess og varnarþing er skráð hjá formanni félagsins hverju sinni.
2. gr.
Markmið félagsins
Markmið félagsins er að styrkja hagsmuni og efla samstöðu og samstarf kvenna á Austurlandi, með það fyrir augum að efla konur persónulega og á hverjum þeim vettvangi sem þær kjósa að hasla sér völl. Markmiðum sínum hyggst félagið m.a. ná með því að standa að upplýsinga- og tengslaveitu á netinu, funda- og námskeiðahaldi og annarri fræðslu- og upplýsingastarfsemi.
3. gr.
Félagsmenn
Félagið er opið öllum konum á Austurlandi sem skrá sig í félagið og greiða félagsgjöld. Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum aðalfundar. Halda skal félagaskrá. Hafi félagskona ekki greitt félagsgjald samfellt í tvö starfsár skal litið svo á að hún óski ekki lengur eftir aðild að félaginu og nafn hennar tekið út af félagaskrá.
4. gr.
Tekjur félagsins
Tekjur félagsins eru félagsgjöld, styrkir, vaxtatekjur og aðrar tekjur sem kunna að verða af rekstri. Ákvörðun um félagsgjöld skulu tekin á aðalfundi.
5. gr.
Félagsfundir
Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Almenna félagsfundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu fimmtungs félagskvenna. Krafa um félagsfund skal gerð skriflega og fundarefni tilgreint og er þá stjórn skylt að boða til fundar innan fjórtán daga. Félagsstjórn boðar til almennra félagsfunda með minnst sjö daga fyrirvara og til aðalfundar með minnst fjórtán daga fyrirvara með tilkynningu til hverrar félagskonu og/eða auglýsingu í fjölmiðlum. Í aðalfundarboði skal auk tilkynningar um dagskrá óskað eftir framboðum til stjórnar félagsins og annarra trúnaðarstarfa. Félagsfundur er lögmætur ef að hann er löglega boðaður. Félagsfundur kýs fundarstjóra og fundarritara, sem skráir fundargerð. Hver félagskona hefur eitt atkvæði á fundum félagsins. Rétt til setu á félagsfundum eiga allar félagskonur. Rétt til atkvæðis á aðalfundi og öðrum félagsfundum eiga þær félagskonur sem staðið hafa skil á félagsgjaldi yfirstandandi starfsárs. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema samþykktir þessar kveði á um annað varðandi einstök mál.
6. gr.
Dagskrá aðalfundar
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
3. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár kynntur og lagður fram til samþykktar.
4. Breytingar á samþykktum
5. Kosning stjórnar og tveggja skoðunarmanna.
6. Ákvörðun félagsgjalds og gjalddaga þess.
7. Önnur mál og umræður.
7. gr.
Stjórn
Stjórn félagsins skal skipuð fimm konum. Skulu þrjár kjörnar annað árið og tvær næsta ár til tveggja ára í senn á aðalfundi. Tvær konur skulu kjörnar til vara til eins árs í senn. Endurkjör er heimilt. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins og gætir hagsmuna þess á grundvelli samþykkta þessara og ákvarðana félagsfunda. Stjórnarfundi skal halda að minnsta kosti sex sinnum á ári. Formaður stjórnar boðar til funda. Stjórnarfundir eru lögmætir ef þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum í stjórn félagsins. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Um það sem gerist á stjórnarfundum skal haldin gerðabók. Stjórninni er heimilt að skuldbinda félagið fjárhagslega, enda undirriti þrír stjórnarmenn hið minnsta slíkar skuldbindingar. Formaður og gjaldkeri hafa prókúruumboð.
8. gr.
Starfsár – reikningsár
Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið.
9. gr.
Breytingar á samþykktum þessum
Samþykktum þessum má aðeins breyta á aðalfundum félagsins, enda fái breytingar tillaga 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur að breytingum þurfa að berast stjórninni eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Tillögur til breytinga á samþykktum þessum skal kynna um leið og boðað er til aðalfundar.
10. gr.
Slit félagsins
Ákvörðun um slit félagsins er háð samþykki 2/3 hluta félagskvenna á félagsfundi, sem kveður jafnframt á um hvernig farið skuli með eignir og skuldir félagsins. Komi til slita félagsins skulu skjöl þess og fundargerðir afhent Kvennasögusafni Íslands.
Þannig samþykkt á stofnfundi T.A.K. á Egilsstöðum 20. maí 2010.
Breyting gerð á 7. grein á aðalfundi TAK á Egilsstöðum 25. maí 2011